Í síðustu viku hófst vinna við sandblástur Ölfusárbrúar en til stendur að mála grindina í aðalbrúnni í sumar.
Alex Ægisson setti fram þá tillögu í Facebookhópnum Íbúar á Selfossi að brúin yrði nú máluð í vínrauðum lit, sem er litur Ungmennafélags Selfoss. Óhætt er að segja að tillagan hafi fengið frábærar undirtektir og virðast Selfyssingar vera á einu máli um ágæti hennar. Hátt í 700 manns líkar við færsluna og fjörugar umræður hafa spunnist um myndina.
Meðal þeirra sem taka til máls er bæjarfulltrúinn Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar. Tómas er sammála hugmyndinni og eins og fleiri er hann ekki hrifinn af því að tákn bæjarins sé málað í felulitum eins og brúin er núna.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingarfulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is í síðustu viku að brúin yrði máluð í sama lit og áður en það er Vegagerðin sem ræður litnum. Nú er spurning hvort þessi jákvæði hópþrýstingur frá Selfyssingum hafi áhrif á þá ákvörðun.