Á næsta ári munu fjórir Íslendingar leggja upp í róður á sérstökum úthafsróðrarbát yfir Norður-Atlantshafið frá Noregi til Norður Ameríku án fylgdar.
Einn fjórmenninganna er Selfyssingurinn Einar Örn Sigurdórsson en hinir þrír eru Eyþór Eðvarðsson, Kjartan Jakob Hauksson og Svanur Wilcox. Leiðin sem þeir eiga fyrir höndum er hátt í 5.000 kílómetrar.
Róið verður milli landa samkvæmt reglum Ocean Rowing Society og Guinness World Records þannig að róðurinn verður óstuddur og án fylgdarbáta. Þannig mun Heimsmetabók Guinnes fylgjast með róðrinum en einnig er Saga Film að hefja fjármögnun á heimildarmynd um róðurinn.
Einar og félagar munu ýta úr vör í Kristianssand í Noregi á þjóðhátíðardag Norðmanna, 17. maí og er stefnan sett á Aberdeen í Skotlandi. „Þaðan munum við róa áleiðis til Færeyja og síðan til Íslands. Eftir vetursetu á Íslandi verður þvínæst haldið áfram frá til Grænlands og Nýfundnalands. Á leiðinni verður hugað að sögunni og tengslunum við þær þjóðir sem fyrstar byggðu Ísland og mótuðu þann menningararf sem við sem þjóð eigum,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is.
Báturinn sem íslensku víkingarnir munu nota í ferðina er sérútbúinn til úthafsróðrar.