Selfyssingurinn Helgi Kristinn Halldórsson er annar tveggja Íslendinga í sex manna hópi sem opnaði nýlega mexíkóskan skyndibitastað í Árósum í Danmörku.
Það eru Eyjafréttir sem greina frá þessu en Helgi Kristinn er fæddur í Vestmannaeyjum og uppalinn á Selfossi en hann er sonur Halldórs Inga Guðmundsson og Önnu Þóru Einarsdóttur.
Helgi Kristinn er lærður kokkur og vann eftir útskrift á Perlunni og Hótel Loftleiðum. Hann hefur einnig starfað við markaðssetningu matvæla hjá heildsölunni Innnes. Helgi Kristinn flutti ásamt eiginkonu sinni, Lóu Björk Jóelsdóttur, og börnum þeirra til Árósa í Danmörku 2007. Þar stundaði hann nám við Handelshøjskolen i Århus sem er rekin í samstarfi við Árósarháskóla. Helgi Kristinn hefur lokið Bachelor námi í fjármálum og viðskiptastjórnun auk þess sem hann er með meistargráðu í markaðsfræðum.
Helgi kynntist íslenskum viðskiptafélaga sínum Guðmundi Óskari Pálssyni í íslenska handboltaklúbbnum Mjölni í Árósum. Helgi og Guðmundur opnuðu nýlega mexíkóska skyndibitastaðinn Chido í útjaðri miðbæjar Árósa í félagi við fjóra menn, tvo Dani, Norðmann og Letta.
„Mér fannst hugmyndin mjög spennandi og það var ljóst að með bakgrunn minn sem kokkur gæti ég styrkt hópinn enn frekar,“ segir Helgi Kristinn í samtali við Eyjafréttir. Hugmyndafræðin að baki staðnum er að bjóða upp á mexíkóska skyndibita sem eru framleiddir úr fersku hráefni án aukaefna.
„Við höfum fengið ótrúlega góðar viðtökur, fyrstu dagana mynduðust langar raðir. Nú eftir tæplega viku erum við byrjaðir að eignast fastakúnna sem koma aftur og aftur, jafnvel oftar sama daginn,“ segir Helgi Kristinn. Hann segir það ekki vera leyndarmál að hópurinn hafi áhuga á því að opna fleiri Chido staði í nánustu framtíð.