Selja eignir og slíta félaginu

"Við leggjum til að hægt og rólega verði eignir Húsakynna seldar og félaginu slitið," segir Gunnsteinn Ómarsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Húsakynni er byggðasamlag Rangárþings ytra og Ásahrepps sem á og rekur níu fasteignir sem allar eru íbúðarhúsnæði. Erfið staða félagsins var til umræðu á aðalfundi þess í vikunni. Sveitarstjórn Rangárþings ytra telur mikilvægt að brugðist verði strax við.

„Íbúðir Húsakynna eru mjög skuldsettar, með verðtryggðum lánum og eiginfjárstaðan er neikvæð,“ segir Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti. Hún segir að leitað verði til Íbúðalánasjóðs um mögulega leiðréttingu áhvílandi lána á íbúðunum.

Lagt er til að félagið verði skorið niður um helming á einu til tveimur árum en fyrst er horft til þess að selja þær íbúðir sem ekki eru í leigu. Ein er laus nú þegar og nokkrar losna með vorinu.

Byggðasamlagið varð upphaflega til vegna þarfa læknishéraðsins fyrir húsnæði fyrir starfsfólk en síðar var það notað fyrir starfsmenn skóla og sveitarfélaga.

Tvö húsanna eru í Þykkvabæ, þrjú á Hellu og fjögur á Laugalandi í Holtum.

Fyrri greinÖruggt hjá Árborg
Næsta greinÞriðji tapleikurinn í röð