Selós fær inni hjá SG

Þrátt fyrir stórbruna á trésmíðaverkstæði Selóss í síðustu viku heldur fyrirtækið áfram starfsemi af fullum krafti.

Selós hefur fengið inni hjá SG húsum en þar á bæ er nýstandsett aðstaða til innréttingasmíði.

„Þetta hittist mjög vel á og hérna höfum við öll tæki sem við þurfum til að halda áfram starfsemi af fullum krafti,“ sagði Axel Þór Gissurarson, framkvæmdastjóri Selóss, í samtali við sunnlenska.is.

„Það er nauðsynlegt að við getum haldið verkefnum okkar í gangi og ekki síst störfunum áfram í sveitarfélaginu,“ segir Axel en fimmtán manns starfa hjá Selós. „Við verðum hér í að minnsta kosti þrjá mánuði en stefnum á að endurbyggja verkstæðið við Eyraveginn og fara aftur þar inn. Sú vinna er þegar komin í gang.“

Bráðabirgðarannsókn lögreglu á upptökum eldsins í Selós hefur leitt í ljós að hann kviknaði út frá rafmagni við lakkklefa.

Fyrri greinBæjarfulltrúar skipta með sér verkum árlega
Næsta greinÁrbær og Æskukot hlutu styrk