Selur rafmagn úr sunnlensku roki

Orka náttúrunnar selur nú fólki og fyrirtækjum raforku sem framleidd er í tveimur vindmyllum fyrirtækisins Biokraft, sem risnar eru í Þykkvabæ. Framleiðslan á að geta fullnægt raforkuþörf um þúsund heimila.

Biokraft áformar að reisa fleiri myllur á næstu árum.

Orka náttúrunnarer dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið framleiðir og selur raforku frá jarðvarmavirkjununum á Nesjavöllum og Hellisheiði og vatnsaflsstöðinni í Andakíl auk þess að kaupa rafmagn frá fjölda smærri og stærri framleiðenda til endursölu. Vindmyllurnar í Þykkvabæ voru gangsettar í gær og er þetta upphaf þess að ON aflar rafmagns beint frá vindmyllum.

Þykkvibærinn afar hentugur
Eigendur Biokraft eru Snorri Sturluson og Steingrímur Erlingsson. Þeir hyggja á frekari orkuframleiðslu. „Við hyggjumst setja upp fleiri vindmyllur og erum að skoða virkjunarkosti. Allt Suðurlandið er undir í okkar áformum, en við vitum að Þykkvabæjarsvæðið er mjög gott og heimamenn jákvæðir, þannig að við byrjum þar.“ Veðurfarslega þykir Þykkvibærinn hentugur fyrir vindmyllur; landið flatt, langt í næstu fjöll, mikil nálægð við sjó og vindur jafn.

Eigendur Biokraft eru báðir vélstjórar og hafa langa reynslu af raforkuframleiðslu í skipum. „Við kynntumst virkjun vindorkunnar í Danmörku og fannst að fyrst hún gæti gengið þar, þá hlyti hún að ganga hér, þar sem alltaf er rok.“

Reynsla af nýtingu roksins
Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir ánægjulegt skref nú stigið. Þá sé það mikilvægt að þegar samið var um orkukaupin af Biokraft var einnig samið um aðgang Orku náttúrunnar að upplýsingum um verkefnið, byggingar- og rekstrarkostnað og vinnslusögu. „Það er mjög gott að fá þetta tækifæri til að fá kynnast nýtingu vindsins og það hentar Orku náttúrunnar vel að gera þetta í samstarfi við aðila eins og Biokraft,“ segir Páll.

Myllurnar eru danskar, af tegundinni Vestas. Þeir eru festir á 53 metra háa turna. Það þýðir að í hæstu stöðu er hvor mylla liðlega 70 metra há, eða jafnhá Hallgrímskirkju. Samanlagt afl þeirra 1,2 megavött og áætluð framleiðsla allt að þrjár gígavattstundir á ári. Myllurnar stóðu áður úti í Þýskalandi en voru teknar niður til að rýma fyrir öðrum stærri.

Fyrri greinMenningarmánuðurinn undirbúinn
Næsta greinFestu bíl í Steinholtsá