Selurinn Dilla eltir starfsmennina á röndum

Á laugardegi seint í maí fengu starfsmenn dýragarðsins í Slakka í Laugarási símhringingu þar sem þeir voru beðnir um að taka að sér lítinn selkóp.

Seinna um daginn var selkópurinn mættur í Slakka. Kópurinn fannst í Traustholtshólma í Þjórsá og hlaut nafnið Dýrleif – kölluð Dilla – í höfðuðið á Dýrleifu Árnadóttur, síðasta ábúandanum í Traustholtshólma.

En svo tók alvaran við. Hvaða borða selir? Hvað er hann gamall? Hvaða tegund af sel er hann? Er hann karl- eða kvenkyns? Til að koma starfsmönnum Slakka af stað með þetta mikla verkefni var dýralæknirinn Kristín Silja Guðlaugsdóttir þeim til halds og traust en síðan þá hefur verkefnið gengið eins og í sögu.

Helgi Sveinbjörnsson í dýragarðinum Slakka segir að ef Dilla væri enn úti í náttúrinni með móður væri hún enn á spena og því er eðlilegt að hún hafi ekki náð tökum á því að éta sjálf. Þau dýr sem fá ekki móðurmjólkina eru yfirleitt mun seinni til að ná fullum þroska en þau sem alast upp hjá móður sinni. Helgi segir að það sé kraftaverki líkast hve vel gengur að fóðra kópinn. „Það er sett slanga ofan hann fimm sinnum á sólarhring og sprautað rjóma og söxuðum fiski ofan í magann.“

Dilla þriðji kópurinn í Slakka
Helgi segir að þetta sé líklega í fyrsta sinn hér á landi sem sel er bjargað og honum hjúkrað með þessum hætti. „Hér eru menn lítið fyrir að hjúkra selum en þeir eru frekar drepnir.“ Hann segir að þetta sé í þriðja sinn sem Slakki taki að sér kóp til að hjúkra honum. „Í fyrsta skipti var kópurinn eldri en Dilla og farinn að éta síld en í annað skiptið fannst kópur við Patreksfjörð og sem var mjög veikur þegar hann kom í garðinn,“ segir Helgi.

Á þeim vikum sem Dilla hefur verið í Slakka hefur hún þyngst og er orðin talsvert hænd að starfsmönnum garðsins. „Hún eltir starfsmennina á röndum og kallar þegar hún er svöng. Hún er róleg og er byrjuð að synda og leika sér með bleikjunum í lauginni.“

Helgi segir að nú þurfi Dilla að ná að vaxa og dafna. „Þegar hún hefur náð fullum þroska verður henni sleppt aftur út í villta náttúruna. Nú fara tennurnar líka að stækka svo hún fer að fá síld og makríl að éta. Þá þarf hún einnig að læra að veiða bleikjurnar í tjörninni en ekki er hægt að sleppa henni út í náttúruna fyrr en hún kann að veiða sér til matar,“ segir Helgi að lokum.

Fyrri greinHringvegurinn ekinn á tíu kílómetra hraða
Næsta greinMagnús Helgi með fjögur – KFR tapaði