Betur fór en á horfðist þegar rúta með hátt í fimmtíu manns innanborðs valt á Þingvallavegi eftir hádegi á þriðjudaginn. Sjúkraflutningamenn á frívakt voru kallaðir út og tókst að manna fjóra sjúkrabíla frá Selfossi.
Að sögn Ármanns Höskuldssonar, yfirmanns sjúkraflutninga HSu, voru tvær áhafnir á vakt, eða fjórir sjúkraflutningamenn. Þegar tilkynning barst um slysið voru send boð á alla tólf sjúkraflutningamennina sem voru á frívakt og með því tókst að manna þá tvo sjúkrabíla sem eftir voru í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Einnig fengu sjúkraflutningamenn á Hvolsvelli boð og sáu þeir um að manna bæði Árnessýslu og Rangárvallasýslu á meðan sjúkrabílarnir frá Selfossi voru á slysstað. Auk þess fóru tveir sjúkrabílar og einn slökkviliðsbíll frá Reykjavík á Þingvelli auk bíla frá Brunavörnum Árnessýslu.
„Það er enginn sjúkraflutningamaður á bakvakt hjá okkur hér í Árnessýslu og þeir sem voru á bakvakt í Rangárvallasýslu voru boðaðir úr,“ sagði Ármann í samtali við sunnlenska.is. „Sem betur fer komu ekki önnur útköll á sama tíma og um leið og ljóst var að ástandið var orðið tryggt á vettvangi þá var sjúkraflutningamönnum snúið aftur á Selfoss og Hvolsvöll.“
Hluti Selfosslögreglunnar kom frá Reykjavík
Þrír lögreglumenn voru á vakt hjá lögreglunni á Selfossi þegar tilkynnt var um slysið, varðstjóri á lögreglustöðinni og tveir lögreglumenn sem að þessu sinni voru staddir í Reykjavík eftir að hafa flutt mann á geðdeild Landspítalans. „Þeir voru um það bil að losna úr því verkefni þegar tilkynnt var um rútuslysið og gátu þess vegna farið beint á vettvang ásamt tveimur rannsóknarlögreglumönnum sem gátu losað sig úr verkefnum á stöðinni,“ sagði Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við sunnlenska.is.
Almennt eru þrír lögreglumenn á vakt á Selfossi en virka daga eru tveir til viðbótar í yfirstjórn á lögreglustöðinni auk fjögurra rannsóknarlögreglumanna og eins sem sinnir daglegum verkefnum. Utan hefðbundins vinnutíma er einn úr yfirstjórn og einn rannsóknarlögreglumaður á bakvakt, sem alltaf næst í.
„Þegar rútuslysið varð voru tveir menn í haldi lögreglu vegna líkamsárásarinnar í Brekkuskógi og tveir rannsóknarlögreglumenn bundnir í því verkefni. Ef í þessu tilviki hefði þurft að fá fleiri menn hefði verið hægt að fá Neyðarlínuna til að senda út hópútkall í síma allra lögreglumanna embættisins. Þar með er ekki sagt að náist til allra en örugglega einhverra,“ sagði Þorgrímur Óli ennfremur. „Sem betur fer komu ekki upp önnur verkefni á því tímabili sem sinna þurfti slysinu á Þingvöllum.“