Nemendur í 10. bekk Sunnulækjarskóla á Selfossi voru sendir heim eftir að rúmlega klukkutíma kennslu í dag, eftir að í ljós kom að nemandi í hópnum gæti mögulega verið smitaður.
Fyrsti skóladagur ársins er í dag og reyndist hann heldur stuttur hjá 10. bekk við Sunnulæk.
Í pósti frá skólastjóra til forráðamanna kemur fram að nemandinn mætti í skólann í morgun en fór fljótlega slappur heim og tók heimapróf, sem var jákvætt. Hann fór í kjölfarið í PCR-próf og er allur 10. bekkur í úrvinnslusóttkví þangað til niðurstaðan úr PCR-prófinu berst.