Sérsveitin aðstoðaði við handtöku í Ölfusinu

Sérsveit lögreglunnar var fengin til aðstoða lögregluna á Selfossi í gærkvöldi við að handtaka karlmann í Ölfusi en maðurinn hafði hótað nágranna sínum lífláti með skotvopni.

Maðurinn, sem er erlendur farandverkamaður, var ölvaður og hafði hann ítrekað í hótunum við nágranna sinn símleiðis. Þótti lögreglu öruggara að fá sérsveitina til liðs við sig enda maðurinn vopnaður.

Manninum hefur verið sleppt eftir yfirheyrslu í morgun og má hann eiga von á kæru.

Þá var annar ölvaður maður handtekinn í Hveragerði. Sá hafði brotið rúður í gróðurhúsi og lét ófriðlega þegar lögreglu bar að garði. Hann var settur í járn en tók þá að naga innréttinguna í lögreglubílnum svo að lögreglumenn þurftu að halda honum á meðan honum var ekið í fangageymslu á Selfossi.

UPPFÆRT KL. 12:24

Fyrri greinUppfært: Hríðarveður í Mýrdalnum til morguns
Næsta greinFjölgaði um tæp 2% í febrúar