Nokkrir menn úr sérsveit ríkislögreglustjóra tóku þátt í leitinni að Ástu Stefánsdóttur í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð í síðustu viku. Að sögn lögreglu voru aðstæður erfiðar en sigmenn og kafarar unnu vel saman við úrlausn verkefnisins.
Lögreglumenn sem starfa í sérsveit ríkislögreglustjóra fá sérhæfða þjálfun vegna mismunandi verkefna sveitarinnar.
Sérsveitin hefur t.d. á að skipa mönnum sem sérhæfðir eru í fjallamennsku, línuvinnu, köfun, fallhlífarstökki, sjúkraflutningum o.fl. sem talið er nauðsynlegt að sérsveit lögreglu hafi getu til.
Sérsveit ríkislögreglustjóra veitir lögreglu um allt land aðstoð við einstök verkefni og við þjálfun lögregluliða þar sem þjálfun sveitarinnar og búnaður hennar kemur að notum.