Set ehf. hefur nýlega gengið frá ráðningu á þremur sérfræðingum sem munu efla fyrirtækið á mismunandi sviðum.
Gísli Karel Eggertsson hefur verið ráðinn vöruhússtjóri hjá Set. Gísli hefur áratugareynslu af lagerstjórn, sölu og verslunarstjórn og sölustörfum. Hann hefur á síðustu árum sérhæft sig í að endurskipuleggja lagera og lagerferla meðal annars hjá Orku náttúrunnar, Margt smátt ehf. og Einar Ágústsson & co. ehf. Hann sér um vöruhús og vöruafgreiðslu. Gísli er menntaður í sjávarútvegsfræðum og starfstengdum námskeiðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Magnús Lárusson hefur verið ráðinn sem sérfræðingur í vörustýringu. Hann kemur með mikla sérþekkingu á innkaupferlum og vörustýringu innan fyrirtækja. Síðustu ár hefur hann unnið hjá Controlant og þar áður hjá Linde Gas. Hann er með M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun og B.A. í félagsfræði frá Háskóla Íslands.
Í starfi öryggis- og gæðastjóra mun Jóhanna Harpa Árnadóttir leiða umbótastarf og endurhönnun ferla. Hún er með umfangsmikla reynslu á sviði sjálfbærni og umhverfismála og starfaði áður sem verkefnastjóri og sérfræðingur hjá Icelandair og Landsvirkjun. Jóhanna hefur M.Sc. í rekstrarverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet, vottun sem verkefnastjóri og diplómu í kennslufræði háskóla.
„Við hjá Set erum ákaflega glöð með þennan góða liðstyrk sem kemur með ráðningu þeirra Gísla, Jóhönnu og Magnúsar. Við erum með metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir Set og ráðningar þeirra eru mikilvægur þáttur í að styrkja félagið í þeirri vegferð. Við bjóðum þau velkomin í okkar öfluga starfsmannahóp sem hefur mikla þekkingu og reynslu við þróun innviðalausna. Mannauðurinn er hjartað í fyrirtækinu“ segir Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Set.
Set ehf. á Selfossi er alþjóðlegt innviðafyrirtæki með starfsemi í þremur löndum og er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Fyrirtækið sérhæfir sig í innviðalausnum á veitu-og lagnasviði og hefur öfluga tækniþekkingu til að mæta ólíkum þörfum viðskiptavina. Set tryggir öruggar og sjálfbærar innviðalausnir sem leggja grunn að betri lífsgæðum fyrir framtíðina.