Bæjarráð Árborgar samþykkti í síðustu viku að setja upp eftirlitsmyndavélar við innkomuleiðir inn í alla þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, lagði fram tillöguna um uppsetningu á eftirlitsmyndavélum og var samþykkt að vísa henni til fjárhagsáætlunargerðar ársins 2014 sem nú stendur yfir. Framkvæmda- og kostnaðaráætlun verður unnin markvisst og hratt svo hægt verði að koma vélunum í gagnið á næsta ári.
Í greinargerð sem fylgdi tillögu Eggerts segir að innbrotum og skemmdarverkum hafi fjölgað á undanförnum árum og íbúar Árborgar hafi ekki sloppið við þessa óheillaþróun frekar en aðrir.
Mjög mikilvægt er að bæjaryfirvöld séu vel meðvituð um þetta stóra vandamál og að mati Eggerts er sjálfsagt og eðlilegt að bæjaryfirvöld leggi sitt af mörkum til þess að vernda öryggi íbúa sveitarfélagsins og standa, eftir því sem mögulegt er, vörð um eigur þeirra.
„Fjárhagslegt tjón og ekki síður andlegur skaði þeirra sem verða fyrir slíkum árásum er í öllum tilfellum verulegur. Reynslan bæði hér á landi og í víða erlendis sýnir að frumkvæði sveitarfélaga og samstillt átak íbúa til þess sporna við þessari óheillaþróun hefur gefið góða raun,“ segir í tillögu Eggerts.