Sex voru fluttir á slysadeild, þar af einn alvarlega slasaður, eftir mjög harðan árekstur efst í Kömbunum á fimmta tímanum í dag.
Þar lentu tvær fólksbifreiðar saman, annarri var ekið niður Kambana en hinum bílnum var ekið inn á útsýnispallinn efst í hlíðinni í veg fyrir hinn.
Ökumaður bílsins sem ók niður Kambana var einn á ferð og hlaut hann alvarlegustu meiðslin í slysinu. Tækjabíll frá Slökkviliðinu í Hveragerði var kallaður á vettvang og þurfti að beita klippum til að ná ökumanninum út. Fimm voru í hinum bílnum. Enginn er talinn í lífshættu.
Bílarnir eru báðir ónýtir. Lögreglan á Selfossi rannsakar tildrög slyssins. Lögreglan er enn á vettvangi og stýrir umferðinni framhjá slysstaðnum.