Frestur til að skila inn framboðum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor rann út í gær. Í Árborg verða sex listar í framboði.
Þau framboð sem skiluðu inn fullskipuðum listum ásamt meðmælendaskrá eru Á-listi Áfram Árborg, B-listi Framsóknarflokksins, D-listi Sjálfstæðisflokksins, M-listi Miðflokksins og Sjálfstæðra, S-listi Samfylkingarinnar og V-listi Vinstri grænna.
Vegna nýrra kosningalaga er fjöldi reyndra starfsmanna í kjörstjórnum orðinn vanhæfur, þar sem nýjar reglur útiloka fólk frá því að sitja í kjörstjórn ef venslafólk þeirra er í framboði. Áður máttu nánustu aðstandendur ekki vera í framboði en mengið hefur verið víkkað hraustlega út í nýju lögunum og á meðal annars við um systkini foreldra, frændsystkini, tengdabörn og fyrrverandi maka – svo fátt eitt sé nefnt.
Ingimundur Sigurmundsson, formaður yfirkjörstjórnar í Árborg, sagði í samtali við sunnlenska.is í dag að töluvert af fólki muni detta út úr kjörstjórnum í Árborg en hann hefur ekki áhyggjur af því að ekki takist að manna kjördeildir fyrir kosningarnar í vor.