Héraðsdómur Suðurlands dæmdi á dögunum karlmann á þrítugsaldri í sex mánaða fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti um Suðurlandsveg í júní í fyrra.
Lögreglan var við umferðareftirlit á Hellisheiði þegar hún veitti húsbíl mannsins athygli þar sem hann ók til austurs. Lögreglan elti bílinn og við Hveragerði var honum gefið merki um að stöðva með ljós- og hljóðmerkjum. Ökumaðurinn sinnti því ekki og lögreglan ók því upp að hlið bílsins og benti karlmanni sem ók bílnum á að stöðva, sem hann og gerði. Eftir að bíllinn stöðvaðist sáu báðir lögreglumennirnir að ökumaðurinn og farþegi í bílnum skiptu snögglega um sæti.
Hinn ákærði þverneitaði því að hafa ekið bílnum og sambýliskona hans sagðist hafa verið undir stýri. Dómarinn í málinu sagði hins vegar að framburður beggja lögreglumannanna hafi verið skýr og afdráttarlaus og með hliðsjón af því sé hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi gerst sekur um að aka bílnum.
Maðurinn hefur tíu sinnum áður hlotið refsingar fyrir akstur sviptur ökurétti og þar sem brot hans er margítrekað kom ekki til álita að skilorðsbinda dóminn. Maðurinn var því dæmdur í sex mánaða fangelsi og til greiðslu tæplega 400 þúsund króna sakarkostnaðar.