Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í síðustu viku rúmlega fimmtugan karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og fíkniefna á Suðurlandsvegi í janúar síðastliðnum.
Lögreglan stöðvaði manninn undir Ingólfsfjalli. Hann var próflaus, undir áhrifum áfengis og amfetamíns auk þess sem lögreglan fann einnig 0,18 gr af amfetamíni í buxnavasa hans.
Þetta er í fimmta sinn sem maðurinn er fundinn sekur um ölvunarakstur og í fjórða sinn sem hann er fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti.
Dómarinn dæmdi hann því í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi og áréttaði ævilanga sviptingu ökuréttar. Fíkniefnin sem fundust á manninum voru gerð upptæk og vegna ítrekaðra brota féllst dómari á kröfu ákæruvaldsins um að bifreið mannsins yrði einnig gerð upptæk. Þá var manninum gert að greiða rúmlega 121 þúsund króna sakarkostnað.