Sex mánaða fangelsi fyrir fíkniefnaakstur

Héraðsdómur Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi á dögunum karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir fíkniefnaakstur.

Lögreglan stöðvaði manninn að nóttu til í september 2020 þar sem hann ók mótorhjóli á Austurvegi á Selfossi undir áhrifum amfetamíns og slævandi lyfja.

Maðurinn hefur sex sinnum áður hlotið refsingu; fyrir ölvunarakstur, fíkniefnaakstur, þjófnað og minniháttar líkamsárás. Vegna fyrri brota var manninum dæmdur hegningarauki og taldi dómari hæfilega refsingu vera sex mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdómur.

Árið 2008 var hinn dæmdi sviptur ökuréttindi ævilangt og áréttaði dómarinn sviptinguna, en þetta var í fjórða skiptið sem manninum var gerð refsing fyrir að aka próflaus.

Að auki var manninum gert að greiða allan sakarkostnað, samtals tæplega 173 þúsund krónur.

Fyrri greinTinna með tíu í fyrsta leik
Næsta greinLaufey nýr formaður FKA á Suðurlandi