Sextán ára urriði í Þingvallavatni

Um síðustu helgi veiddist sextán ára gamall urriði á flugu í Þingvallavatni. Var það hrygna og var hún 92 sentímetra löng.

Hrygnan var veidd í Öxará árið 2002 til hrognatöku og sleppt aftur merktri. Þetta kemur fram á vef Veiðimálastofnunar.

Um síðustu helgi veiddi Hinrik Óskarsson á Selfossi urriðann aftur á flugu við tanga austan við ós Öxarár. Hinrik sleppti fisknum og var hann því ekki vigtaður en miðað við holdafar fisksins af myndum að dæma er hann verið a.m.k. 10 kg.

Þegar hrygnan veiddist árið 2002 var hún 57,5 sentímetra löng og 2,4 kg að þyngd. Af greiningu hreisturs mátti sjá að urriðinn var þá sjö ára og var að koma í fyrsta sinn til hrygningar. Við heimtu nú er þessi urriði því 16 ára og er það elsti urriði úr Þingvallavatni sem komið hefur til greiningar á Veiðimálastofnun.

Hafði urriðinn vaxið um 35,5 cm og bætt við sig u.þ.b. 7,6 kg sem gerir að jafnaði 4,3 cm og 950 g á ári. Þekkt er að Þingvallaurriðar geti orðið langlífir, fá dæmi þekkjast þó af aldursgreindum urriðum eldri en 10–12 ára. Það gerist þó af og til, í júní árið 1948 veiddist 88 cm og 10,3 kg urriði í vatninu sem var greindur 15 ára af hreistri og árið 1957 kom annar 14 ára, hann var þó smærri, 80,5 cm og 5,1 kg.

Fyrri greinKjartan Óla: Ársafmæli íhaldsmeirihlutans í Árborg
Næsta greinÓk í veg fyrir fólksbíl