Nú fer hver að verða síðastur að krækja sér í dagatal sjúkraflutningamanna í Árnessýslu 2014. Eins og venjulega fækka sjúkraflutningamennirnir fötum á dagatalinu og sýna sínar bestu hliðar.
„Eins og alltaf fer ágóðinn af sölunni í að styrkja fjölskyldur langveikra barna og einnig í styrktar- og áfallasjóð sjúkraflutningamanna í Árnessýslu,“ sagði Stefán Pétursson, sjúkraflutningamaður, í samtali við sunnlenska.is. Undanfarin ár hafa sjúkraflutningamennirnir heimsótt fjölskyldurnar á aðfangadag og afhent styrkina og það verður engin breyting á því í ár.
Þetta er sjötta árið í röð sem dagatalið er gefið út með þessum hætti. Það hefur alltaf selst upp og er ekki útlit fyrir annað en að svo verði einnig í ár. Stefán segir að vegna mikillar eftirspurnar hafi upplagið verið aukið í ár en dagatalið kostar 1.500 krónur.
Sjúkraflutningamennirnir eru hvergi feimnir frekar en fyrri daginn en í ár brugðu þeir á leik fyrir framan björgunarmiðstöðina þar sem þeir reyna meðal annars að þrífa sjúkrabíl en gengur það frekar illa – einfaldlega vegna þess hversu kynþokkafullir þeir eru.
Aðdáendur sjúkraflutningamannanna geta nálgast dagatalið hjá sjúkraflutningamönnunum sjálfum en þeir verða á ferðinni við Bónus og Krónuna á Selfossi næstu daga og einnig í Hveragerði og Þorlákshöfn. Fólki er líka óhætt að líta við í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi til að ná sér í eintak.
Þess má að lokum geta að uppboð stendur yfir á einu eintaki, árituðu af stjörnum dagatalsins. Hæsta boð í augnablikinu er 10.000 krónur og eru fyrirtæki og þjónustuaðilar hvattir til að senda boð í áritaða dagatalið á stefanp@hsu.is.
Herra Janúar með kústinn á lofti. Ljósmynd/Stúdíó Stund