Sigga á Grund fær heiðurslaun listamanna

Sigga ásamt Huldu Kristjánsdóttur, sveitarstjóra Flóahrepps og Árna Eiríkssyni, oddvita, þegar hún var gerð að heiðursborgara í Flóahreppi. Ljósmynd/Aðsend

Listakonan Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, Sigga á Grund í Flóahreppi, mun fá heiðurslaun listamanna samkvæmt breytingartillögu við fjárlög sem meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis hefur lagt fram.

Samkvæmt lögum um heiðurslaun listamanna fá 25 listamenn heiðurslaun. Á þessu ári létust tveir þeirra, Hreinn Friðfinns­son og Matth­ías Johann­essen, og í þeirra stað bætast Sigga og Einar Hákonarson, myndlistarmaður, við hóp heiðurslaunaþega.

Þeir einir geta notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða ef störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi.

Sigga er þekktasti listamaður þjóðarinnar þegar kemur að útskurði í tré. Hún hefur meðal annars skorið út allar gangtegundir íslenska hestsins og síðasta vetur skar hún út nýjan fundarhamar fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í stað hamars Ásmundar Sveinssonar sem hafði brotnað.

Á áttræðisafmæli Siggu í maí síðastliðnum var hún útnefnd fyrsti heiðursborgari Flóahrepps.

Sigga á Grund við tvo af útskornu hestunum. sunnlenska.is/MHH
Eitt verka Siggu á Grund, „Leikur í laufi“, var sett á frímerki árið 2010 ásamt tveimur öðrum þekktum verkum úr íslenskri listasögu; Valþjófsstaðahurðinni og Drykkjarhorni lögréttumannsins.
Fyrri greinGeri stundum gagn við sveitastörfin
Næsta greinEinstefna Stólanna í 4. leikhluta