
Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, Sigga á Grund, var í gærkvöldi útnefnd fyrsti heiðursborgari Flóahrepps.
Sigga varð áttræð í gær og hélt upp á afmælið sitt með veislu í Vatnsholti. Þar stigu fulltrúar sveitarfélagsins á stokk og tilkynntu um útnefningu heiðursborgarans og náðu svo sannarlega að koma Siggu á óvart.
Sigga er landsþekkt listakona og þekktust fyrir að skera út í tré. Hún hefur meðal annars skorið út allar gangtegundir íslenska hestsins og síðasta vetur skar hún út nýjan fundarhamar fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í stað hamars Ásmundar Sveinssonar sem hafði brotnað.
