Siglingar á Hvítárvatni í sumar

Boðið verður upp á siglingar á Hvítár­vatni við rætur Langjökuls í sumar af fyrirtækinu Hvítárvatni ehf. í samstarfi við bæði Icelandic Excursion og Íslenska fjallaleið­sögumenn.

Gunnar Guðjónsson fram­kvæmdarstjóri Hvítárvatns ehf. segir að siglt verði fyrir norð­austurhluta vatnsins með leiðsögn. Gert er ráð fyrir að hefja starfsemi 14. júní en Kjalvegur opnaði um það leyti í fyrra.

Gunnar segir að boðið verði upp á tvenns konar ferðir. Annars vegar er sigling yfir vatnið með stuttu stoppi við rætur Lang­jökuls í samstarfi við Icelandic Excursions. Gert er ráð fyrir að þessi ferð taki um einn og hálfan tíma og verður hún þrisvar í viku. Hins vegar verður svo sigling með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum þar sem gengið verður líka upp á jökulinn á mannbroddum og verð­ur sú ferð um þrír klukkutímar að lengd. Báðar ferðirnar verða með leiðsögn og eru hluti af hópferðum sem farnar verða frá Reykjavík og um Gullna hringinn og eru hugs­aðar sem viðbót við hann.

Undirbúningur þessara siglinga hófst fyrir tveim árum. Notaður er álbátur sem tekur 20 farþega og uppfylla þurfti leyfi sambærileg við siglingar á hafi þar sem ekki eru sérreglur fyrir siglingar á stöðuvötnum. Markaðssetning hef­ur gengið vonum framar og tölu­vert er um bókanir þó að um tíma hafi verið óvissa um opnunardag rekstursins vegna eldgossins segir Gunnar.

Fyrri greinUpplýsingafundur á Klaustri
Næsta greinÚtlendingar róa meira