Siglt með tæki og búnað út í Efri-Laugardælaeyju

Það var fallegt en kalt við Ölfusá þegar pramminn sigldi um ána í gær. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Í gær og í dag var unnið að því að koma tækjum og búnaði út í Efri-Laugardælaeyju í Ölfusá þar sem vinna á að jarðvegsrannsóknum vegna byggingar nýrrar Ölfusárbrúar.

„Það stóð til þess að gera þetta fyrr en vegna flóðsins í ánni fyrr í mánuðinum gafst ekki færi til þess fyrr en nú,“ sagði Höskuldur Tryggvason, verkefnastjóri í framkvæmdadeild Vegagerðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Á meðan flóðið var í hámarki var til skoðunar að koma upp „bryggju“ á vesturbakkanum, við Hellisskóg, en þegar flóðið sjatnaði var hætt við það og pramminn Tröll frá Kópavogi er gerður út frá austurbakkanum. Þar var búið að koma upp „bryggju“ sem enn er nothæf þrátt fyrir að flætt hafi yfir hana í krapaflóðinu.

Grétar Grétarsson og Árni Kópsson hjá Vatnsborun ehf voru hinir hressustu við vinnu sína. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Unnið að nákvæmum rannsóknum
Starfsmenn Vatnsborunar ehf. munu sjá um rannsóknirnar en félagið er undirverktaki hjá ÞG verk sem sér um byggingu brúarinnar. Notast var við prammann til þess að ferja tæki og verkfæri út í eyjuna og gekk það vel, undir haukfránum augum félaga úr Björgunarfélagi Árborgar, sem voru til öryggis á vettvangi.

„Berglög í eyjunni voru rannsökuð árið 2015 en nú þarf að gera nákvæmari rannsóknir vegna hönnunar á stöplinum sem rísa mun á eyjunni,“ segir Höskuldur ennfremur.

sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Að sögn Höskuldar er ýmis vinna í gangi við fyrirhugað vegstæði í kringum brúna, unnið að jarðvegsskiptum og verið að setja upp vinnubúðir austan megin. Einnig sé áætlað að hefja fljótlega vinnu við vegskeringar vestan árinnar. Þá þarf að loka göngustígum í Hellisskógi en unnið er að útfærslu hjáleiða fyrir gangandi vegfarendur nær árbakkanum.

Fyrri greinFjóla ráðin sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi
Næsta greinSSK afhenti HSU veglegar gjafir