Lesendur sunnlenska.is kusu Sigríði Sæland, íþróttakennara á Selfossi, Sunnlending ársins 2017. Sigríður fékk yfirburðakosningu en þátttakan í atkvæðagreiðslunni var góð að vanda.
Með öruggum handtökum bjargaði Sigríður lífi Ásdísar Styrmisdóttur sem fór í hjartastopp í Sundhöll Selfoss þann 11. október síðastliðinn. Sigríður, sem er 73 ára gömul, hefur kennt skyndihjálp í áraraðir en þetta var í fyrsta skipti sem hún hefur þurft að beita henni sjálf á þennan hátt.
Þetta er áttunda árið í röð sem lesendur sunnlenska.is kjósa Sunnlending ársins. Alls fékk 21 Sunnlendingur atkvæði í kjörinu að þessu sinni.
Í öðru sæti í kosningunni varð tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson, sem vann hug og hjörtu þjóðarinnar í Söngvakeppni sjónvarpsins þar sem hann varð í 2. sæti. Þriðja sætið í kosningunni fór svo til viðbragðsaðilanna á Suðurlandi sem hafa unnið mörg afrek á þessu ári, nú síðast þegar stórslys varð á þjóðvegi 1 í Skaftárhreppi á þriðja degi jóla.
Viðtal við Sunnlending ársins mun birtast á sunnlenska.is á morgun, Nýársdag.