Sigríður Kristín ráðin á Breiðabólsstað

Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir hefur verið ráðin sóknarprestur í Breiðabólsstaðarprestakalli.

Tíu sóttu um starfið og kaus kjörnefnd Sigríði Kristínu Helgadóttur til starfans og hefur biskup Íslands staðfest ráðningu hennar.

Í samræmi við þær breytingar sem hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er  Sigríður ráðin ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

Sigríður Kristín er fædd í Reykjavík 1971, dóttir Ingibjargar Elísabetar Jóhannesdóttur, húsmóður, og Helga Sigurðssonar, sjómanns. Hún ólst upp í Hafnarfirði og lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1991. Eiginmaður Sigríðar er Eyjólfur Einar, Elíasson forstöðumaður hjá Reykjavíkurborg, og eiga þau fjórar uppkomnar dætur.

Árið 2000 lauk Sigríður prófi frá guðfræðideild HÍ og þjónaði eftir það í nítján ár hjá Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Hún hefur einnig starfa sem heimilisprestur á Hrafnistu í Hafnarfirði. Auk prestsstarfanna má nefna að Sigríður hefur stundað söngnám og numið fjölskyldufræði auk þess sem hún gegnir embætti forseta Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.

Fyrri greinEr stundum svo mikið á undan sjálfri mér
Næsta greinFSu og LbhÍ sameinast um nám í búfræði og garðyrkju