Sigtún þróunarfélag ehf hefur boðið Sveitarfélaginu Árborg að leigja bílastæðahús með kauprétti í miðbæ Selfoss.
Bæjaryfirvöld hafa skoðað bílastæðamál í miðbænum að undanförnu, þar sem búist er við aukinni bílastæðaþörf þegar menningarsalur og endurskipulagður bæjargarður verður tekinn í notkun, auk hins nýja miðbæjarsvæðis. Meðal hugmynda sem kastað hefur verið fram er að stofna bílastæðasjóð og innheimta stöðugjöld af bílum.
Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var tekið fyrir tilboð frá Sigtúni þróunarfélagi þar sem sveitarfélaginu er boðið að leigja 229 bílastæði í tveggja hæða bílastæðahúsi á baklóð við Eyraveg. Um er að ræða 10 ára leigusamning og hefði sveitarfélagið kauprétt á bílastæðahúsinu í janúar ár hvert. Kaupverðið er 350 milljónir króna fyrir árið 2022 og lækkar um 5% á ári eftir það, en er bundið vísitölu neysluverðs.
Leigukostnaðurinn í tilboðinu er 41,4 milljónir króna á ári, auk jafnvirði fasteignagjalda af byggingunni og 10% veltutengingar ef gjaldtaka verður á bílastæðunum.
Bæjarráð frestaði því að taka afstöðu til tilboðsins á fundinum í síðustu viku og óskaði eftir því að bæjarstjóri léti vinna greiningu á bílastæðaþörf á miðsvæði Selfoss til næstu framtíðar.