Menntaverðlaun Suðurlands 2017 voru afhent við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á dögunum. Sigurður Sigursveinsson fékk verðlaunin að þessu sinni.
Þetta er í tíunda sinn sem verðlaunin eru veitt og ákvað úthlutunarnefnd á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga að veita Sigurði verðlaunin fyrir framlag sitt til eflingar menntunar á Suðurlandi, með aðkomu sinni að átaksverkefnum í tengslum við uppbyggingu grunnnáms á háskólastigi sem og að stuðla að bættri aðstöðu til fjarnáms. Sigurður er framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands og fyrrum skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands. Alls voru 29 meðmælendur sem stóðu að tilnefningunni.
„Sigurður á langan og farsælan feril í menntamálum og rannsóknum á Suðurlandi. Einstakt viðmót hans, sem einkennist af metnaði, áhuga, þolinmæði, umhyggju og sveigjanleika í garð þeirra sem nýta aðstöðu Háskólafélags Suðurlands í Fjölheimum er til fyrirmyndar og til eftirbreytni,“ segir meðal annars í tilnefningunni með verðlaununum.
Alls bárust þrjár tilnefningar til Menntaverðlauna Suðurlands 2017 en hin tvö verkefnin voru Góðgerðardagar í Sunnulækjarskóla á Selfossi og Hvolsskóli á Hvolsvelli fyrir framúrskarandi stefnu og árangur í tengslum umhverfis- og náttúruvitund, lýðheilsu, skóla og samfélags.