Sigurður Loftsson í Steinsholti, formaður Landssambands kúabænda, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku á aðalfundi sambandsins í lok mars.
Þetta kemur fram í leiðara sem Sigurður skrifar á heimasíðu Landsambands kúabænda.
„Á komandi aðalfundi verður að venju gengið til kosninga og fólk valið til trúnaðarstarfa fyrir samtökin næsta árið. Mér þykir rétt að geta þess nú að ég mun ekki gefa kost á mér áfram til formennsku fyrir Landssamband kúabænda. „Hratt flýgur stund“ er stundum sagt, en á komandi aðalfundi eru liðin 14 ár frá því að ég var fyrst kjörinn í stjórn samtakanna,“ segir Sigurður í leiðaranum.
Hann hefur gengt formennsku í Landssambandi kúabænda frá árinu 2009.
Nýr formaður verður kjörinn á aðalfundi Landssambands kúabænda sem verður settur í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar fimmtudaginn 31. mars næstkomandi.