Sigurður Ingi hjólaði inn í sumarið

Átakið Hjólað í vinnuna var sett í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Átakið Hjólað í vinnuna var sett í sautjánda sinn í morgun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Flutt voru stutt og hressileg hvatningarávörp en meðal þeirra sem settu átakið var Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra.

Að ávörpunum loknum hjóluðu gestir og þátttakendur átakið formlega af stað.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur í sautjánda sinn fyrir Hjólað í vinnuna, dagana 8.-28. maí. Verkefnið höfðar til starfsfólks á vinnustöðum landsins og hefur þátttakan margfaldast á þeim 16 árum sem liðin eru frá því að verkefnið fór af stað.

Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta annan virkan ferðamáta til og frá vinnu.

Allar upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á www.hjoladivinnuna.is.

Fyrri greinStyrkjum úr íþrótta- og afrekssjóði úthlutað í fyrsta sinn
Næsta greinUppfært: Lögreglan lýsir eftir manni