Sigurður Ingi leggur sjálfan sig undir – Halla Hrund leiðir Framsókn í Suðurkjördæmi

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins á kjörstað á Flúðum. Ljósmynd/KSFS

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, mun leggja til við kjörstjórn Framsóknar í Suðurkjördæmi að Halla Hrund Logadóttir, starfandi orkumálastjóri, verði í 1. sæti á lista Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar. Sjálfur býður hann sig fram í annað sæti.

„Með þessari tillögu legg ég sjálfan mig undir. Enda lít ég svo á að sá formaður sem ekki leggur sjálfan sig að veði fyrir flokkinn sinn sé ekki sannur leiðtogi,“ segir Sigurður Ingi í færslu á Facebook.

„Ef horft er á skoðanakannanir þá á Framsókn á brattann að sækja. Staða flokksins í Suðurkjördæmi er sú að enginn kjördæmakjörinn þingmaður Framsóknar næði inn á þing ef kosið væri nú. Það væri ekki aðeins slæmt fyrir flokkinn heldur er það einlæg trú mín að það séu hagsmunir kjördæmisins og þjóðarinnar að Framsókn eigi sterka rödd á þjóðþinginu,“ segir Sigurður Ingi og býður hann Höllu Hrund velkomna í flokkinn.

„Ég er fullviss um að þessi nýja rödd Framsóknar og samvinnustefnunnar muni hljóma sterk fyrir kjördæmið og landið allt á Alþingi Íslendinga.“

Halla Hrund Logadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinReis semí upp frá dauðum
Næsta greinKatrín Drífa og félagar Evrópumeistarar