Lesendur sunnlenska.is kusu Sigurjón Ægi Ólafsson, kraftlyftingamann á Selfossi, Sunnlending ársins 2023. Kosningin fór fram á vefnum í janúar og var þátttakan mikil að vanda.
Ægir var hissa og ánægður þegar hann fékk fréttirnar af kosningunni. „Þetta kemur mér mjög mikið á óvart og ég er heldur betur ánægður með þetta enda frábært ár að baki.“
Hann sýndi það og sannaði á árinu hversu einstakur íþróttamaður hann en Ægir vakti gríðarlega athygli fyrir framgöngu sína á Special Olympics í Berlín í sumar og náði svo í gullverðlaun í Special Olympics flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem fram fór í Litháen í nóvember.
Húsið lék á reiðiskjálfi
„Mótið í Berlín var býsna stórt og hápunktur ársins hjá mér ásamt heimsmeistaramótinu í Litháen. Það var brjáluð stemning í Berlín og mjög gaman að keppa þar. Þegar ég fór á verðlaunapallinn þá titraði hann. Húsið lék á reiðiskjálfi, slík voru fagnaðarlætin,“ segir Ægir en myndbönd af honum þar sem hann steig upp úr hjólastólnum til að lyfta fóru eins og eldur í sinu um heimsbyggðina.
Ægir er frá Mörtungu í Skaftárhreppi en hefur búið á Selfossi í tæp tuttugu ár. „Ég verð alltaf Skaftfellingur,“ segir hann og hlær. Hann greindist með vöðvarýrnunarsjúkdóm um tveggja ára aldur sem veldur vöðvaslappleika í líkamanum en Ægir hefur meiri kraft í höndunum en fótunum. Þrátt fyrir þetta hefur hann sýnt að hann er nautsterkur en Ægir byrjaði íþróttaferilinn í boccia og skipti yfir í kraftlyftingarnar fyrir rúmum tólf árum.
Íþróttirnar efla sjálfstraustið
„Það sem mér finnst fyrst og fremst gaman við lyftingarnar er að sjá bætingarnar. Þetta er allt að koma hjá mér núna eftir að ég braut á mér olnbogann árið 2018. Ég dalaði aðeins eftir það en hef verið að vinna mig upp og er nú til dæmis kominn aftur í 100 kíló í réttstöðulyftu, sem er besta greinin mín. Það er ekki bara gott fyrir líkamann að vera í íþróttum, heldur líka gott fyrir sjálfstraustið og gott félagslega. Það er mjög öflugt starf hjá Íþróttafélaginu Suðra og góður hópur sem er að æfa þar,“ segir Ægir ennfremur.
Hann er orðinn 41 árs og glottir út í annað þegar hann nefnir að nú sé hann kominn í öldungaflokk í sinni íþrótt. „En þetta er bara skemmtilegt og það er nóg framundan. Markmið ársins er að fara á Íslandsmótið og gera mitt besta þar og reyna að vinna mig inn á heimsmeistaramótið sem haldið verður hérna á Íslandi í nóvember,“ sagði Ægir að lokum.
Alls fengu 52 atkvæði
Þátttakan í kosningunni um Sunnlending ársins var frábær og atkvæðin dreifðust á 52 einstaklinga. Önnur í kjörinu varð Svanhildur Inga Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu og þriðja Ása Berglind Hjálmarsdóttir, bæjarfulltrúi í Ölfusinu.
Eftir að Ægir kom heim af Special Olympics í sumar var hann Sunnlendingur vikunnar á sunnlenska.is eins og lesa má hér.
Iceland's Aegir Olafsson lost power in his foot at a young age.
Today, he got out of his wheelchair to perform a lift at the Special Olympics World Games 🙌 pic.twitter.com/V84k7iQqDZ
— SportsCenter (@SportsCenter) June 23, 2023