Fjölmennt lið slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi, Stokkseyri, Eyrarbakka og í Þorlákshöfn hefur í kvöld barist við mikinn sinueld í landi Ásgautsstaða, um 1 km norðan við Stokkseyri.
Talið er að eldurinn hafi logað á um tíu hektara svæði og hefur slökkvistarf gengið hægt fyrir sig þar sem ekki er hægt að komast að eldinum á bílum, heldur eru slökkviliðsmennirnir fótgangandi í mýrinni með klöppur og berja niður eldinn. Einnig hefur staðan verið tekin úr flugvél en Þórir Tryggvason, slökkviliðsmaður, flaug yfir svæðið í kvöld til að meta aðstæður.
Útkallið barst laust fyrir klukkan átta í kvöld og fékk Neyðarlínan nokkrar tilkynningar um eldinn enda sést gríðarmikill mökkur frá honum um allan Flóann.