Sjálfboðaliðar í Alviðru læra að steikja kleinur

Sjálboðaliðahópur í Alviðru. Ljósmynd/Auður I Ottesen

Undanfarin tvö sumur hefur öflugur hópur sjálfboðaliða frá Seeds sinnt fjölbreyttu hreinsunar- og viðhaldsstarfi í umhverfissetrinu Alviðru í Ölfusi.

Í sumar hefur einnig hópur frá Birtu starfsendurhæfingu tekið þátt í verkþjálfun á svæðinu en það er Auður I. Ottesen á Selfossi sem verkstýrir þessu hópastarfi.

Auður segir þetta starf í Alviðru mjög gefandi en fjölbreyttur hópur sjálfboðaliða hefur unnið þar ýmis störf. „Okkur hefur orðið gríðalega ágengt í hreinsun, endurbyggingu, lagfæringum og í grenndargarði sem ég hóf að rækta í með öðrum fyrir fjórum árum,“ segir Auður.

Til þess að brjóta upp vinnudagana stendur til að hóparnir steiki kleinur í næstu viku og leitar Auður nú að sjálfboðaliðum til þess að kenna kleinubaksturinn, á mánudag og þriðjudag.

„Sjálfboðaliðar Seeds og Birtufélagar myndu fletja degið út, skera og búa til kleinurnar og svo steikja undir eftirliti. Ég veit að það myndi skapast æðisleg stemning og í lok kleinubakstursins verður svo öllum boðið uppá kleinur og ískalda mjólk,“ segir Auður en baksturinn verður á milli klukkan 13 og 15 á mánudag og þriðjudag og leitar Auður að 2-3 sjálfboðaliðum til að kenna kleinubaksturinn í hvort sinn.

Áhugasamir sjálfboðaliðar geta sett sig í samband við Auði á audur@auduralltarid.is.

Fyrri greinOpið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands
Næsta greinÖruggt á SS vellinum – Uppsveitir sóttu stig vestur