Björgunarsveitirnar Lífgjöf í Álftaveri og Stjarnan í Skaftártungu voru kallaðar út fyrr í dag þegar tilkynnt var um ferðamann í vandræmum í Hólmsá á Fjallabaksleið syðri.
Ferðalangurinn hafði fest Suzuki Jimny úti í ánni en náð að komast út úr bílnum og upp á árbakkann.
Björgunarsveitir nálguðust ána úr báðum áttum og var ökumanninum komið í hlýjan björgunarsveitarbíl en hann var kaldur og hrakinn þegar björgun barst. Bílinn þurfti hins vegar að skilja eftir í ánni. Hann virtist hafa strandað á grjóti og hreyfðist ekki, en björgunarsveitarfólk fann ekki botn milli bíls og bakka í viðleitni sinni við að koma honum upp úr ánni.
Pálmar Atli Jóhannesson, formaður Stjörnunnar, segist sjaldan hafa séð jafn mikið vatn í Hólmsá og í dag.
Ferðalangurinn hafði náð einhverjum farangri sínum upp á bakkann og þáði far með björgunarsveitarbíl til byggða, hvar hann átti bókaða gistingu í kvöld í nágrenni Kirkjubæjarklausturs.