Hvalurinn sem rak á land í Hvolsfjöru á dögunum reyndist vera skugganefja, sjaldséður djúpsjávarhvalur af svínhvalaætt.
Að sögn Gísla A. Víkingssonar, sjávarlíffræðings hjá Hafrannsóknarstofnun, heldur skugganefjan sig aðallega úti á rúmsjó og er sjaldséð á grunnsævi. Hennar verður öðru hverju vart hér við land, og aðallega þá dauðra dýra sem rekið hefur á land.
Skugganefjan í Hvolsfjöru reyndist vera tæplega sex metra langur tarfur. Starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar fóru á staðinn til mælinga og sýnatöku fyrir páska, áður en hræið var urðað.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skugganefju rekur á land í Mýrdalnum því það gerðist einnig í Víkurfjöru, rétt fyrir páska árið 2004.
TENGDAR FRÉTTIR:
Hvalreki í Hvolsfjöru