„Sjálfbærni er ekki einstaklingsverkefni“

Margarita í skógarferðferð með nemendum á leikskólanum Álfheimum. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir skemmstu var haldið námskeið fyrir leikskólakennara og annað starfsfólk leikskóla í Alviðru í Grímsnesi sem bar yfirskriftina Sjálfbærni í leikskólastarfi.

Námskeiðið var á vegum Adventures For Students Iceland, sem er nýstofnað fyrirtæki á Selfossi og var haldið í samvinnu við Hildi Dagbjörtu Arnardóttur, vistræktarkennara.

„Við höfum lengi haft áhuga á sjálfbærni, störfuðum til dæmis í rúm fimm ár í sjálfbæru samfélagi á Sólheimum, auk þess sem Margarita hefur sótt ráðstefnur erlendis sem samtökin Global Ecovillage Network hafa staðið fyrir,“ segir Jónas Hallgrímsson, hjá Adventures For Students Iceland, í samtali við sunnlenska.is.

Jónas rekur fyrirtækið ásamt eiginkonu sinni, Margarita Hamatsu en hún er uppeldis- og menntunarfræðingur og deildarstjóri á grænfána Leikskólanum Álfheimum á Selfossi

„Þegar Margarita hóf störf sem deildarstjóri á leikskólanum Álfheimum á Selfossi þá langaði hana til að vinna meira með sjálfbærni í leikskólastarfinu, t.d. gera tilraunir með og þróa ýmsar aðferðir nánar. Álfheimar hefur verið grænfána leikskóli í mörg ár og eru bæði stjórnendur og annað starfsfólk mjög opin fyrir nýjum hugmyndum tengdum sjálfbærni,“ segir Jónas.

Andrea Ögn Guðmundsdóttir, nemendi á Álfheimum, með hluta af kartöfluuppskerunni sl. haust. Ljósmynd/Aðsend

Mikill áhugi á efninu
„Varðandi sjálfbærni almennt þá finnst okkur að við getum gert miklu betur og bætt við þekkingu. Því datt okkur í hug að það væri tilvalið að halda námskeið fyrir leikskólakennara sem byggt væri á þeim grunni sem Margarita hafði þegar unnið í Álfheimum, varðandi gildi sjálfbærra samfélaga og vistrækt. Við fengum vistræktarkennarann Hildi Dagbjörtu Arnardóttur í lið með okkur, til þess meðal annars að kenna þátttakendum að rækta sitt eigið grænmeti.“

Fyrrnefnt námskeið var haldið dagana 24.-26. mars og stóð yfir í tvo og hálfan dag. „Námskeiðið gekk mjög vel. Þátttakendur voru tíu talsins, sem var mjög góður fjöldi þar sem að við vorum að halda námskeiðið í fyrsta skipti. Okkur fannst mjög gaman að sjá brennandi áhuga þátttakenda á námsefninu og umfjöllunarefninu. Það er alltaf gaman að miðla þekkingu til fólks sem er áhugasamt og virkilega mætt til að læra og auka þekkingu sína,“ segir Jónas.

Mikilvægt að byrja snemma
„Námskeiðið var bæði í fyrirlestra og umræðuformi, en einnig verklegt, sem við teljum að sé nauðsynleg blanda. Það er að okkar mati nauðsynlegt að þátttakendur fái tækifæri til að framkvæma í raun það sem búið er að fara yfir í fyrirlestrum og umræðum. Þátttakendur smíðuðu meðal annars sinn eigin ræktunarkassa, settu í hann mold og sáðu fyrir grænmeti.“

„Leikskólinn er að okkar mati fyrsta skólastigið og það er því bráðnauðsynlegt að byrja að mennta unga fólkið strax í leikskóla. Eðlilega hafa kennarar ekki fengið mikla fræðslu um sjálfbærni og því finnst okkur svo mikilvægt að fræða kennara, sem miðla þekkingu til nemenda sinna, sem síðan taka þekkinguna heim og hrífa jafnvel foreldrana. Með því móti fræðum við bæði unga fólkið og okkur sem eldri erum í leiðinni. Sjálfbærni er ekki einstaklingsverkefni heldur næst ekki árangur nema með virkri þátttöku allra í samfélaginu,“ segir Jónas.

Elizabeth Nunberg og Anita Rubberdt, þátttakendur á námskeiðinu, með ræktunarkassann sem að þær smíðuðu. Ljósmynd/Aðsend

Umræðan stundum yfirborðsleg
„Við Íslendingar erum almennt meðvituð um sjálfbærni að því leyti að fólk hefur heyrt frasana en veit kannski ekki nákvæmlega í hverju sjálfbærni raunverulega felst. Það fer stundum svolítið í taugarnar á okkur að umræðan er á stundum yfirborðsleg, en vonandi breytist það með tímanum og við förum raunverulega að gera hlutina vel.“

„Við myndum vilja sjá að hið opinbera, fyrirtæki og fólk almennt sjái hlutina í aðeins víðara og dýpra samhengi. Þar kemur menntun og fræðsla sterkt inn, enda veit fólk eðlilega ekki það sem það hefur ekki heyrt um eða lært. „Greenwashing“ er hugtak sem á við fyrirtæki eða stofnanir sem eyða tíma og peningum í það að markaðssetja að þau leggi ríka áherslu á sjálfbærni, þegar það er meira á yfirborðinu en í raun. Okkur langar að sjá það breytast enda höfum við öll tækifæri í hendi, búandi hér í okkar einstaka landi,“ segir Jónas.

Valdefla ungmenni af erlendum uppruna
Jónas segir að þau hjá Adventures For Students Iceland séu með nokkur verk í vinnslu. „Það sem er næst á dagskrá er verkefni sem við vinnum með Móðurmál – samtökum um tvítyngi. Verkefnið snýst um valdeflingu ungmenna af erlendum uppruna, með það að markmiði að efla sjálfstraust ungmenna af erlendum uppruna og hvetja þau til virkari þátttöku í samfélaginu. Við erum sem dæmi mjög stolt af því að hafa nýverið fengið eina milljón króna í styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála til að hrinda verkefninu í framkvæmd og erum mjög þakklát fyrir það.“

„Menntun er sterkasta verkfærið sem að við höfum til að tækla stór mál eins og loftslagsbreytingar, umhverfismál, samfélagsmál og önnur mál tengd sjálfbærni og samfélaginu sem að við búum í. Tilgangur okkar fyrirtækis, Adventures For Students Iceland, er að fræða, mennta og efla unga fólkið okkar, hvort sem um er að ræða íslensk eða erlend ungmenni,“ segir Jónas að lokum.

Lísbet Nílsdóttir leikskólakennari á Álfheimum að fræða nemendur um fræ. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinUppstilling hjá Miðflokknum
Næsta grein„Þetta var frábær liðssigur“