Tómas Ellert Tómasson, kosningastjóri Miðflokksins og bæjarfulltrúi flokksins í Árborg, gagnrýnir Birgi Þórarinsson harkalega fyrir ákvörðun sína um að ganga í Sjálfstæðisflokkinn.
Birgir tilkynnti um vistaskiptin í grein í Morgunblaðinu í dag.
Tómas Ellert var að eigin sögn helsti bandamaður Birgis á síðasta kjörtímabili en Tómas frétti ekki af útspili Birgis fyrr en eftir að ákvörðunin var tekin. „Hvar eru samviskan og heilindin í því?“ spyr Tómas Ellert í aðsendri grein á Vísi.
„Sjálfshyggju þingmannsins virðast lítil takmörk sett á sviði stjórnmálanna þessi dægrin. Nokkrar birtingamyndir hennar koma fram í minningargreininni sem hann skrifar í Morgunblaðið. Það sem sker þó helst í skynsöm augu við lestur hennar, er að það sé mögulegt að koma kvarthundrað sinnum fyrir orðinu „ég“ í tæplega sjöhundruð orða grein. Og að hann klappi sjálfum sér á bakið og þakki sér kærlega fyrir að hafa viðhaldið styrkleika Miðflokksins í Suðurkjördæmi á síðasta kjörtímabili. Úrslit kosninganna nú séu svo öðrum að kenna,“ segir Tómas Ellert í grein sinni.
„Miðflokkurinn var stofnaður fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins sem leitar ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu. Skynsemishyggja var stefnan nefnd. Birgir Þórarinsson, nú kjörinn þingmaður Miðflokksins í 10 daga, ákvað að kasta þeirri stefnu fyrir róða og taka í staðinn upp sjálfshyggju,“ segir Tómas Ellert ennfremur í greininni.