Sjálfstæðisflokkurinn er með 28,9 prósenta fylgi í Suðurkjördæmi og stóreykur fylgi sitt í kjördæminu á milli mánaða í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup.
Fyrir mánuði síðan var fylgi flokksins 21,1 prósent en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 19,6 prósent fylgi í síðustu Alþingiskosningum.
Gallup fékk 64 svar frá kjósendum í Suðurkjördæmi í þjóðarpúlsi sem tekinn var 3. febrúar til 2. mars og birtir sunnlenska.is niðurstöðurnar úr Suðurkjördæmi í samstarfi við RÚV.
Flokkur fólksins heldur áfram að dala
Fylgi Flokks fólksins heldur áfram að dala í kjördæminu. Það er 13,7 prósent nú og lækkar um 1,5 prósent á milli mánaða. Flokkur fólksins fékk 20,0 prósent í kosningunum í nóvember. Suðurkjördæmi er áfram sterkasta vígi Flokks fólksins á landinu.
Samfylkingin stendur nánast í stað í Suðurkjördæmi á milli mánaða og er með 18,0 prósent. Framsóknarflokkurinn dalar um 1 prósent á milli mánaða, er nú með 11,0 prósent en var með 8,8% í kosningunum.
Miðflokkurinn lækkar um tæp 3 prósent á milli mánaða og Viðreisn um rúm tvö prósent. Miðflokkurinn er nú með 10,9 prósent fylgi í kjördæminu og Viðreisn með 9,6 prósent.
Aðrir flokkar á þingi eru á svipuðu róli nú og fyrir mánuði síðan; Píratar með 3,1%, Sósíalistar eru í 2,2%, Vinstri græn í 1,4%, Lýðræðisflokkurinn í 1,2% og Ábyrg framtíð með 0,0%.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn
Yrðu þetta niðurstöður þingkosninga í dag myndi Flokkur fólksins missa einn kjördæmakjörinn þingmann og Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig einum. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 3 þingmenn, Samfylkingin 2, Flokkur fólksins 1, Miðflokkurinn 1, Framsókn 1 og Viðreisn 1.