Sjálfstæðismenn furðu lostnir

Guðrún Hafsteinsdóttir. Ljósmynd/gudrunhafsteins.is

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi lýsa yfir furðu sinni og gríðarlegum vonbrigðum með að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hafi hundsað forystumann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, í ráðherravali sínu.

Þetta kemur fram í ályktun sem öll stjórnir allra fulltrúaráða sjálfstæðisfélaganna sex í kjördæminu samþykktu í dag.

„Vægi landsbyggðarinnar er vægast sagt fyrir borð borið með úthlutun ráðherrastóla í komandi ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn gefur sig út fyrir að vera flokkur allra landsmanna og ætti að sýna það í gjörðum sínum. Það að veita Guðrúnu Hafsteinsdóttur ráðuneyti einungis hluta kjörtímabilsins er eins og blaut tuska í andlitið á þeim þúsundum kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og öllum þeim hundruðum sjálfboðaliða sem tóku þátt í að tryggja glæst gengi flokksins,“ segir í ályktun fulltrúaráðanna og þess er krafist að Bjarni Benediktsson veiti frekari útskýringar á þessari ákvörðun.

Næst mesta fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu
Formenn ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi eru sömuleiðis undrandi og þeir sendu einnig frá sér ályktun í dag þar sem það er harmað að mjög ítrekað sé gengið framhjá oddvitum Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

„Í síðastliðnum kosningum hlaut listi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi gífurlegan stuðning og eignuðust þar fyrsta þingmann kjördæmisins. Þess má geta að oddviti sjálfstæðismanna fékk því fleiri atkvæði og meiri stuðning en oddviti og formaður Framsóknarflokksins. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti, en gengið hefur verið framhjá oddvitum kjördæmisins þrjár ríkisstjórnir í röð. Það er ekki hægt að efast um styrk lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi þar sem þeir eru með næst mesta fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu og þá aðeins kjördæmi formannsins þar sem fylgi flokksins er meira,“ segir í ályktun ungra sjálfstæðismanna. Þeir lýsa einnig yfir miklum vonbrigðum skiptingu ráðherra á milli landshluta þar sem tíu ráðherrar auk forseta þingsins koma frá höfuðborgarsvæðinu en aðeins tveir ráðherrar koma af landsbyggðinni.

Fyrri grein„Hlutirnir gerast ekki með því að smella fingri“
Næsta greinErlent samstarf í blóma þrátt fyrir COVID-19