Sjálfstæðisflokkurinn og Nýi óháði listinn hafa gengið til meirihlutasamstarfs í sveitarstjórn Rangárþings eystra.
Málefna- og samstarfssamningur var undirritaður síðastliðinn föstudag og mun ný sveitarstjórn taka til starfa á fyrsta fundi sínum þann 2. júní næstkomandi.
Þar verður lögð fram tillaga um að Tómas Birgir Magnússon, oddviti N-listans, verði oddviti Rangárþings eystra, að Anton Kári Halldórsson, oddviti D-listans verði ráðin sveitarstjóri og að Árný Hrund Svavarsdóttir, sem skipaði 2. sætið á D-listanum, verði formaður byggðarráðs Rangárþings eystra.
Í kosningunum þann 14. maí síðastliðinn fékk Sjálfstæðisflokkurinn 42,4% atkvæða og þrjá fulltrúa kjörna og Nýi óháði listinn fékk 21,3% atkvæða og einn fulltrúa kjörinn. B-listinn, sem var í meirihlutasamstarfi með D-listanum á síðasta kjörtímabili fékk 36,3% atkvæða og þrjá fulltrúa kjörna.