„Búið er að ganga frá samningum um sölu á sjö íbúðum af tíu. Það eru heimamenn, bæði hér í þorpinu og í sveitinni í kring, sem hafa til þessa keypt allar íbúðirnar.
Sama á við um þá aðila sem eru að spyrjast fyrir um þær íbúðir sem eftir eru,“ segir Örn Sigurðsson, einn af þremur athafnarmönnum í Vík í Mýrdal, sem eru að byggja tvö raðhús á staðnum með tíu íbúðum.
Búið er að loka öðru húsinu og styttist í það vinna inni í því hefjist. Á allra næstu dögum verður hafist handa við að loka síðara húsinu.
Samkvæmt verkáætlun eiga bæði húsin að vera tilbúin til afhendingar í mars.