Það hljóp heldur betur á snærið í kvöld hjá Emil Vilbergssyni, sjö ára strák á Flúðum í Hrunamannahreppi, en hann veiddi fullorðna tófu nálægt Auðsholti.
Emil var á ferð ásamt föður sínum, Vilberg Tryggvasyni, að vitja um álagildru í mýrinni við Auðsholt. Enginn áll reyndist vera í gildrunni en veiðimaðurinn ungi hafði ekki sagt sitt síðasta þetta kvöld.
Á leiðinni heim rak Emil augun í tófu sem hljóp rétt fyrir framan bílinn og hoppuðu þeir feðgar út úr bílnum til að skoða hana betur. Emil sá þá hvar hún skaust inn í kjarr og þar náðu þeir henni. Tófan hlaut bráðan bana eftir að hafa verið barin í höfuðið með spýtubút sem var á pallinum á bílnum.
Emil kom svo hróðugur með fenginn heim til móður sinnar sem átti afskaplega bágt með að sjá dautt dýr á tröppunum hjá sér þannig að veiðimaðurinn heimsótti Sigurð Hans Jónsson, tófubana sveitarfélagsins, og færði honum afrakstur veiðiferðarinnar.