Mikil og lúmsk hálka hefur verið í umdæmi Hvolsvallarlögreglunnar og akstursskilyrði ekki góð. Sjö bílveltur voru tilkynntar til lögreglunnar í liðinni viku þar sem ökumenn misstu bíla sína í hálku.
Á fimmtudag var tilkynnt um bílveltu austan við Landvegamót. Þar hafði bifreið snúist á veginum, hafnað útaf, oltið tvær til þrjár veltur og endað í skurði. Þeir sem í bílnum voru voru fluttir á Heilsugæslustöðina á Hellu til skoðunar og aðhlynningar. Ekki var talið að um alvarleg meiðsl væri að ræða.
Sama dag var tilkynnt um bílveltu austan við Þjórsá meiðsli voru minniháttar, á sama tíma var einnig tilkynnt um bílveltu skammt austan við Hemlu, engin meiðsli voru þar.
Aðfaranótt laugardags var tilkynnt um bílveltu austan við Skálm í Skaftárhreppi. Fjórir erlendir ferðamenn voru þarna á ferð í bílaleigubíl. Farþegi, sem var sá eini sem ekki var í bílbelti, kastaðist út úr bifreiðinni við veltuna. Hann hlaut alvarlega áverka og var lagður inn á sjúkrahús í Reyjavík til meðferðar. Þeir sem voru með honum í bifreiðinni sluppu betur og þurftu ekki að leggjast inn á sjúkrahús.
Á laugardaginn var tilkynnt um bílveltu skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Fjórir voru í bifreiðinni og allir með bílbelti og barn í bílstól. Engin meiðsli urðu við óhappið.
Sama dag var tilkynnt um bílveltu austan við Landvegamót. Ekki um slys á fólki, en ökumaður var einn í bifreiðinni. Á sunnudag var tilkynnt um bílveltu austan við Hvolsvöll. Engin slys urðu í því óhappi.
Snjómokstur og hálkuvörn er mikill öryggisþáttur í samgöngum þeirra sem ferðast á milli landshorna. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að Vegagerðin hafi tekið vel í beiðnir frá lögreglunni sem komið hefur með ábendingar varðandi slæma vegarkafla og hafa Vegagerðarmenn brugðist skjótt við, sem ber að þakka.
Nú nálgast jólin óðfluga og hvetur lögregla vegfarendur til að sýna aðgát í umferðinni. Bílbelti bjarga miklu og slysið í vikunni sýnir að þau skipta sköpum. Það tekur um það bil tvær sekúndur að setja á sig bílbeltið en þessar tvær sekúndur koma ekki aftur, eftir að slys hefur átt sér stað.
Samtals voru um 50 mál bókuð hjá lögreglunni á Hvolsvelli þessa vikuna. Fimm voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt en sá sem hraðast ók var mældur á 127 km hraða.