Sl. laugardag var tuttugu íslenskum skátum veitt Forsetamerkið við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Af þeim voru sjö Fossbúar frá Selfossi.
Forsetamerkið er viðurkenning fyrir skáta sem hafa lengi unnið að skátastarfi, starfað sem foringjar og axlað ábyrgð á margvíslegum sviðum. Þessir sjö skátar ásamt fleiri félögum þeirra eru kjarninn í starfi Skátafélagsins Fossbúa, sem er með miklum blóma um þessar mundir.
Reglubundnir fundir eru áþriðjudögum og fimmtudögum en þess á milli er ýmislegt í boði fyrir skátana, s.s. námskeið og skátamót þar sem skátar úr ýmsum félögum koma saman. Fyrir skömmu fór góður hópur skáta í Fossbúum ásamt foreldrum í gönguferð í Hellisskógi og síðastliðinn föstudag fóru foringjar og stjórnarliðar saman í Adrenalíngarðinn.
Síðar í þessum mánuði verður haldin sameiginleg kvöldvaka sem foreldrum verður boðið að taka þátt í og í upphafi næsta mánaðar verður farið í helgarferð á Úlfljótsvatn. Þetta er aðeins brot af því sem er á döfinni en fylgjast má með starfinu á fésbókarsíðu Fossbúa.
Skátafélagið hefur í nokkur ár haft aðsetur í húsnæði á skólalóð Sandvíkurskóla en þær fréttir bárust í síðustu viku að bæjarráð Árborgar hafi samþykkt að félagið fái afnot af fyrrverandi húsnæði leikskólans Glaðheima frá og með næstu áramótum. Það er því bjart framundan hjá Fossbúum.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Unnur Líf Kvaran, Ólöf Huld Magnúsdóttir, Guðný Helgadóttir, Vala Hauksdóttir, forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Daníel Bergur Ragnarsson, Jón Páll Guðjónsson, Hrafnkell Úlfur Ragnarsson og Auður Lilja Arnþórsdóttir, félagsforingi Skátafélagsins Fossbúa.