Sjö umferðarslys hafa verið tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi frá því síðastliðinn föstudag. Ekki var um alvarleg slys á fólki að ræða en í einu tilfellinu er ökumaður grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda.
Í einu slysinu var ekið á sjö kindur sem allar drápust.
Í morgun var ekið á barn á reiðhjóli við gatnamót Erlurima og Norðurhóla á Selfossi. Betur fór en á horfðist en barnið var flutt til skoðunar á slysadeild HSU.
Auk þessara slysa fékk lögreglan á Suðurlandi þrjár tilkynningar um að ekið hefði verið á bifreiðar og þeir sem ollu tjóninu létu sig hverfa af vettvangi.