Nú eru alls sjö manns í sóttkví á Suðurlandi vegna COVID-19. Tveir bættust við í kvöld vegna tilfærslu úr öðru húsnæði utan Suðurlands. Þeir munu dvelja tímabundið hjá ættingjum sem eru líka í sóttkví.
Áfram er einn smitaður einstaklingur í heimaeinangrun í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu, eins og sunnlenska.is hefur greint frá.
Að sögn Hjartar Kristjánssonar, sóttvarnarlæknis suðurumdæmis, var haldinn stöðufundur aðgerðastjórnar í embætti lögreglunnar á Suðurlandi á Selfossi í dag vegna hækkunar á viðbragðsstigi almannavarna í neyðarstig. Þar var farið yfir stöðu mála á landinu og á Suðurlandi sérstaklega og viðbrögð uppfærð í samræmi við nýtt stig.
Eins og fram kom á blaðamannafundi Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra í dag þá hefur ríkislögreglustjóri lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna sýkinga af völdum SARS-CoV-2 veirunnar. Það var gert meðal annars vegna þess að sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands.