„Flóðvarnargarðurinn er farinn við lóð Vegagerðarinnar þannig að það flæðir inn á iðnaðarsvæðið og sjórinn gengur alveg upp að þjóðvegi þar fyrir austan,“ sagði Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, í samtali við sunnlenska.is.
Sjórinn hefur étið mikið framan af fjörukantinum við Vík í vetur og í veðrinu í morgun gaf flóðvarnargarðurinn eftir á kafla austast í þorpinu.
„Það er búið að vera snælduvitlaust veður hérna í morgun. Það var hífandi rok og austanátt framundir miðnætti en svo lygndi og það var ekki mikill vindur um níuleitið í morgun þegar það var háflóð. Síðan rauk hann upp aftur í morgun,“ sagði Ásgeir. „Núna er mikið rok og ég sé að það brýtur hérna stöðugt yfir garðinn.“
Á háflóði í morgun gekk sjórinn alveg upp að þjóðveginum austan við iðnaðarhverfið og inn á lóð Vegagerðarinnar. Austan við þorpið er svo hesthúsahverfi en þar hafði ekki flætt inn.
„Það eru farnir tugir metra úr fjörukantinum hérna í vetur og núna er hluti af flóðvarnargarðinum farinn. Mér sýnist ekki hafa farið meira úr sandfangaranum sem laskaðist nokkuð í lægðinni stóru fyrr í desember. Það er að fjara út núna en það hleður mikið á þegar hann stendur svona að suðvestan,“ segir Ásgeir.
Sveitastjórn hefur þrýst á aðgerðir vegna ágangs sjávar í vetur og Ásgeir segir að nú sé tíminn á þrotum. „Við erum bara að tapa landinu og það verður að gera eitthvað í því strax til þess að verja þetta.“
Myndirnar hér að neðan tók Sigurður Hjálmarsson um klukkan hálfellefu í morgun.
sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson