Sjötíu konur hafa leitað til Sigurhæða, þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi, frá því starfsemi þjónustunnar hófst á vordögum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.
Lögreglan sat fund í liðinni viku þar sem farið var yfir rekstur Sigurhæða en Lögreglan á Suðurlandi er einn þeirra aðila sem að verkefninu koma. Eftir forviðtal er skjólstæðingum Sigurhæða beint áfram í sálfræði-, lögfræði- eða aðra þá þjónustu sem viðkomandi leitar eftir til að fá úrlausn sinna mála.
Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að tvö mál er varða heimilisofbeldi komu inn á borð lögreglu í síðustu viku. Málin eru til meðferðar hjá lögreglu og, eftir atvikum, viðkomandi barnaverndaryfirvöldum. Í þriðja málinu voru barnaverndaryfirvöld á Suðurlandi aðstoðuð þegar fjarlægja þurfti barn af heimili þar sem umtalsverð fíkniefnaneysla fór fram og ástand forsjáraðila eftir því.