Um sjötíu björgunarsveitarmenn eru nú við leit á og við Ölfusá eftir að bíll sást fara í ána fyrir ofan Básinn við Selfosskirkju um klukkan 22 í kvöld.
Allar björgunarsveitir í Árnessýslu hafa verið kallaðar út auk sveita úr Rangárvallasýslu og á höfuðborgarsvæðinu.
„Leitarsvæðið er þetta þekkta svæði á Ölfusá frá Selfosskirkju að Kaldaðarnesi sunnan megin og að Kirkjuferju norðanmegin. Við erum með heildarútkall á svæði þrjú, þannig að það eru um það bil 50 manns úr Árnessýslu auk slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi, þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjúkraflutningamenn þannig að það eru um sjötíu manns að leita og fleiri á leiðinni. Við fengum meðal annars mjög góða leitarkastara frá Reykjavík,“ sagði Viðar Arason, í svæðisstjórn björgunarsveita, í samtali við sunnlenska.is.
Leitinni er stýrt úr Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.
„Veðurspáin er mjög, mjög slæm, það verða slæm leitarskilyrði í nótt og það er töluvert vatn í ánni þannig að það er ekki nema fyrir vana menn frá Björgunarfélagi Árborgar að sigla á henni. Við stefnum á að leita á bátum til klukkan eitt í nótt en gönguhópar verða á ferðinni í alla nótt á stöðum sem við erum kunnugir á og teljum líklega til árangurs. Mesti hausverkurinn er veðrið sem verður mjög slæmt, við erum með gula viðvörun hér á svæðinu og appelsínugula viðvörun fyrir austan okkur þannig að það má búast við að björgunarsveitirnar þar þurfi að fara í önnur verkefni,“ sagði Viðar ennfremur.